Aðgát skal höfð…

Kontora heitir fyrirtækið sem bryddað hefur upp á þessari framúrstefnulegu aðferð við að útvega fólki lán. Viktor Mirosiichenko stjórnar starfsemi fyrirtækisins og segir ferlið við lántökuna sáraeinfalt. Fólk leggi sál sína einfaldlega að veði, skrifi undir plagg þess efnis og peningarnir séu þar með til reiðu. Lántakinn þurfi ekki að skrifa meira en fornafn sitt undir samninginn þar sem hann lofar því að ódauðleg sál hans standi sem veð fyrir láninu eins og það er orðað á pappírunum.

Mirosiichenko segir í samtali við Reuters-fréttastofuna að þeir sem ekki standi í skilum hafi einfaldlega enga sál lengur, það sé ekki flóknara. Þessi sálfræðilegu lán Kontora hafa verið vinsæl síðan fyrirtækið hóf starfsemi sína enda nánast útilokað að fá lán hjá lettneskum bönkum sem orðið hafa mjög illa úti í efnahagskreppunni eins og reyndar landið allt.

Atvinnuleysi hefur vaxið hröðum skrefum í Lettlandi og síðasta ríkisstjórn landsins hrökklaðist frá völdum snemma á árinu vegna óstöðugleika í efnahagsmálum. Litlum fyrirtækjum, sem lána fé, oft með okurvöxtum, hefur vaxið mjög fiskur um hrygg síðan síga tók á ógæfuhliðina og tengjast mörg þeirra rússnesku mafíunni. Ekki er ljóst hvort Kontora er tengt henni eður ei.

Athugasemdir

athugasemdir