Að veturnóttum

kyndingJanúar og febrúar eru að jafnaði köldustu mánuðirnir í Noregi. Það tók mig nánast fyrstu tvö árin hér að venjast því að fólk talar ekki um vetur fyrr en eftir áramót. Það þarf nú að gera þetta eða hitt fyrir veturinn eru menn að segja alveg fram að jólum og finnst þá veturinn ekki vera genginn í garð. Allt önnur hugtakanotkun en maður er alinn upp við auðvitað. (MYND: Konan sem kyndir ofninn minn. Maður þarf ekki að vera Davíð Stefánsson til að hafa eina svoleiðis.)

Þessa dagana vaknar maður við allt að tíu, tólf stiga frost á morgnana en annars eru öfgarnar frekar litlar í veðri hér í Rogaland. Veðurþulurinn í útvarpinu þylur upp mun skuggalegri tölur frá Nordland og fylkjunum þar norðan við, Troms og Finnmark, en þar þykja 30 í mínus ekki sérstakt fréttaefni.

Mér finnst þetta ágætt tímabil þannig séð þótt mér leiðist janúar og febrúar svona frekar (enda alltaf bláedrú þá). Helsti gallinn er stór og áberandi – rafmagn í Noregi kostar hvítuna úr augunum og hér er rafmagnið helsta leiðin til húshitunar ásamt gamla góða arninum. Engin eldvirkni, enginn jarðhiti…bara olía.

Við kveikjum töluvert upp núna meðan við þreyjum þessa síðustu daga áður en vorið brýst í gegn sem er yfirleitt í mars. Þetta er notalegt og ágæt viðbót við tvo litla olíufyllta rafmagnsofna sem hafa verið hér í botni síðan um jól. Fimmtán kílóa poki af eldiviði kostar 50 krónur sem er engin ósköp enda mikið um húshitun með þessum forna hætti. Á köldum dögum liðast reykurinn upp úr hverjum skorsteini hér og ég minnist þess síðan við unnum á háskólasjúkrahúsinu hve tilkomumikil sjón það var að horfa yfir Våland- og Ullandhaug-hverfin ofan af sjöttu hæð við þessar aðstæður. Það var eins og einhvers konar útópískt ævintýraland, ekki síst með öll húsin úr timbri.

Athugasemdir

athugasemdir