Æ sér gjöf til gjalda

jolagjofÞegar ég gekk inn á skrifstofuna mína í gær, eftir hið hroðalega jólafrí sem hér hefur verið fjallað um, mætti mér merkileg sjón. Á borðinu stóð haugur af krukkum, flöskum og túpum vafið í sellófan og hnýtt snyrtilegum borða. Fljótlega kom í ljós að þarna var komin jólagjöf heilbrigðisyfirvalda til starfsfólks deildarinnar og var samsetning hennar slík að margir minni bógar hefðu sennilega móðgast heiftarlega og talið um rætna ábendingu að ræða.

Til að byrja með voru þarna þrír stautar af svitalyktareyði, svokallaður Dove Silk Dry, Sterilan, sem inniheldur aloe vera, og að lokum Sterilan Man sem mér finnst nú fremur óhugnanlegur titill.

Þá komu hársnyrtivörurnar sem ég efast ekki um að muni breyta lífi mínu: Definehair thickening shampoo, Defineradiant shine shampoo og síðast en alls ekki síst Definenourishing silk balsam. Gjörsamlega það sem ég var að bíða eftir. Næst kom sápulausa sturtukremið Dr. Greve með möndluolíu og höfrum – sérstaklega ætlað þurri húð ef marka má lesefni á túpunni, þá Aloe Vera-handsápa með vaselíni (hvaða vitfirringur setur vaselín í handsápu??), Lypsyl-varasalvi og túpa af Solidox-tannkremi sem ku gefa skjannahvítan tanngarð á aðeins tveimur vikum.

Í miðjunni stóð svo rúsínan í pylsuendanum í öllu sínu græna veldi og bar höfuð og úðadælu yfir allan skarann: Jif-ofna- og grillhreinsir! Ég hef nú marga fjöruna sopið þegar kemur að furðulegum gjafauppátækjum en þessi jólagjöf Háskólasjúkrahússins í Stavanger slær öll aðsóknarmet. Auðvitað hefði verið freistandi að álykta að vinnufélagarnir hefðu staðið fyrir grikknum til að benda mér kurteislega á að þeir hefðu fengið sig fullsadda af lyktinni af mér, grútskítugu hárstríi, krónískt þurrum vörum og djöfullegum tönnum. En af hverju þá ofnahreinsirinn??? Enginn þeirra hefur komið heim til mín enn sem komið er og kíkt inn í ofninn (sem er reyndar viðbjóður eftir einhverja ostabrauðsframleiðslu í fyrra) og minna vita þeir um kúlugrillið sem við keyptum í sumar og gleymdist reyndar úti í garði – tandurhreint þá væntanlega fyrir vikið.
jif
Óhætt er þó að segja að hluti af góssinu komi í góðar þarfir, til dæmis verður gott tannkrem seint ofmetið. En eftir stendur að hér er á ferð merkilegasta jólagjöf sem ég hef fengið – að maður tali nú ekki um frá fyrirtæki eða stofnun. Gamli konfektkassinn hefur nú víðast hvar alltaf talist þægileg lausn fyrir gefanda sem þiggjanda. Nei, ekki hjá norskum ríkisstofnunum – þær gefa svitalyktareyði og ofnahreinsi. Notagildið ofar öllu, þar er norsk hugsun í hnotskurn.

Athugasemdir

athugasemdir