Norðmönnum þykir fátt skemmtilegra en að kose (frb. kúse) seg sem er norska útgáfan af hinu danska hygge sig. Flestir kannast sem sagt við þetta sem einhvers konar blöndu af að hafa það gott og notalegt auk þess jafnvel að skemmta sér samhliða hinu tvennu. Okkur fannst óborganlegt að heyra þetta orðalag frá hinum kósóvska vinnufélaga okkar Vicky í samhenginu ‘kose meg på Facebook’ en þar var hún að kvarta yfir því að hún fengi engan frið í heimilistölvunni við þá iðju fyrir barnahópi sínum sem iðulega einokaði gripinn. Nú er ég við það að fá þetta sérkennilega orðalag á heilann og er þó ekki einu sinni á Facebook. Gaman að þessu. (MYND: Klukkan langt gengin í sjö að kvöldi síðastliðinn laugardag og sól hátt á lofti. Þetta á meira að segja eftir að batna næstu vikur.)
Þótt ég hafi ekki gefið sérstakan gaum að því á sínum tíma lýsi ég nú yfir eindregnum stuðningi við frumvarp Kristjáns Möller, Vilhjálms Egilssonar og einhverra fleiri frá árinu 2000 um tímareikning á Íslandi þar sem gerð var tilraun til að taka upp svokallaðan sumartíma sem felst í því að færa klukkuna fram um einn tíma í lok mars og svo aftur til baka í október. Tilgangurinn er meðal annars að gera vinnandi fólki kleift að kose seg í sólinni eftir vinnu á sumardögum.
Þetta fyrirkomulag er við lýði hér í Noregi og er tímamismunur við Ísland því tveir tímar núna og fram í október. Þetta svínvirkar á grillið. Þegar við stimplum okkur út klukkan tvö er sól sem sagt í hádegisstað hér sem getur varla talist slæmt. Á góðum degi getur maður því gert ráð fyrir um það bil sex tímum af sólbaðsveðri auk tæpra þriggja af kvöldsól sem skín einmitt hér inn þegar þetta er ritað klukkan að ganga ellefu (tímasetningin efst í pistlinum er íslensk).
Það er einstök tilfinning að ljúka fullum vinnudegi, fara svo í ræktina með gufu og öllu saman og án þess að vera sérstaklega að flýta sér og geta að þessu loknu dottið inn í sólbað heima í þrjá fjóra tíma. Ég held að líkami minn skilji þetta fyrirkomulag ekki enn sem komið er og fyrir vikið brenn ég ekki í sólbaðinu. Það kemur væntanlega.
Eitt er þó grábölvað við þetta mál allt saman og snertir drykkju. Varð ég illa fyrir barðinu á því þar sem ég var staddur í Helsinki aðfaranótt föstudags eða laugardags í mars 2003 þegar sumartími skall þar á fyrirvaralaust. Þetta gerist klukkan eitt eftir miðnætti og er framkvæmdin þannig að á slaginu eitt verður klukkan tvö. Allur bekkurinn í fréttaritaranáminu við Svenska social- och kommunalhögskolan var á eyrunum á einhverjum finnskum bar og hófst mikil múgsefjun þegar misdrukkinn lýðurinn áttaði sig á þeirri staðreynd að afgreiðslutími barsins styttist um heila klukkustund á einni sekúndu við það að klukkan sló tvö klukkan eitt.
Á hinn bóginn lenda heppnir drykkjumenn í þessari verkun þveröfugri í október svo menn koma kannski út á núlli. Best væri þó að koma út með einn í plús með því að upphaf sumartíma væri aðfaranótt þriðjudags en lok hans á almennum bartíma. Slíkt fyrirkomulag myndi vafalítið létta lund margra álíka mikið og lengdur sóltími. Alla vega mína.
Föstudagur á morgun og lok fyrstu vinnuviku. Nú getur maður aftur farið að fagna því að komast í helgarfrí eftir tæplega hálfs árs langa helgi. Jibbí!