Að brotna með stæl

vedur daudansÖllum fögrum fyrirheitum var beinlínis sturtað niður þessa löngu fríhelgi sem átti að fara í nám og æfingar fyrir taekwondo-gráðun á miðvikudaginn, undirbúning fyrirlestrar sem ég flyt á ráðstefnu á spítalanum á fimmtudaginn, stíft lyftingaprógramm og frágang á trénu sem ég sagaði niður í garðinum fyrir mánuði. Orsök þessa heljarklúðurs var föstudagur sem heilsaði suðvesturströnd Noregs með sól og 25 stiga hita, eitthvað annað en ferðaveðrið í Preikestol-göngunni hrikalegu á fimmtudaginn. (MYND: Heima í hádegismat á föstudaginn. Þegar myndin var tekin hafði ég þegar gert það upp við mig að helgin yrði ein samfelld hátíð Bakkusi til dýrðar. Svo varð.)

Ég var kominn í helgarletikastið strax upp úr klukkan 07 á föstudagsmorgun. Mæting í vinnuna var nánast formsatriði. Föstudagar á milli fimmtudagsfrídags og helgar eru steindauðir í Noregi. Allir sem mögulega geta taka sér frí og eiga fjögurra daga helgi við grill, át, hyttetúra og drykkju sem jafnan eru ofarlega á vinsældalista hins dæmigerða Norðmanns. Vinnusíminn hringdi tvisvar hjá mér allan daginn sem er met í rólegheitum og ég átti bara hinn þægilegasta dag á skrifstofunni við að færa veikindafjarvistir og vinnutíma inn í starfsmannakerfið. Frábært.

Klukkan 12 á hádegi var ég búinn að sannfæra mig um að ekkert vit væri að fara að lyfta lóðum innanhúss í þessari rjómablíðu. Hálftíma seinna hjólaði ég í Vinmonopolet og sneri til baka með fullan bakpoka af hvítvíni og vodka. Þá varð ekki aftur snúið og ólifnaðurinn hófst. Honum lauk svo eiginlega ekki fyrr en í dag, sunnudag, og ég þakka almættinu fyrir að vera að byrja á kvöldvaktarviku og eiga þar með mánudagsfrí. Áfram maður í djöfuls nafni, eins og Jón Hreggviðsson sagði við böðulinn Sigurð Snorrason.

Veðurblíðan hélst alla helgina og ég er búinn að endurnýja sólbrúnkuna sem ég lagði grunn að um páskana í þeim hitapotti sem þá myndaðist en þar voru á ferð heitustu páskar síðan 1943 í Noregi.vedur daudansii (MYND: Veðurblíðunnar notið í garðinum. Að baki mér liggur tréð sem átti að saga niður í eldivið um helgina. Það liggur þar enn þegar þetta er skrifað.)

Nú bíður skelfileg vika, 8. gup gráðun á miðvikudaginn, sem ég er ekki búinn að lesa eða æfa neitt sérstaklega undir, fyrirlestur um framkvæmd markmiða ræstingadeildarinnar á fimmtudaginn, sem ég hefði auðveldlega getað skrifað frá a til ö um helgina en kaus Bakkus heldur, og helgarvakt um hvítasunnuhelgina. Ljósið við enda ganganna er þó bjart, tónleikar með Eagles á Viking Stadion klukkan 19:30 á hvítasunnudag og frí á mánudag og þriðjudag til að jafna mig eftir þá svakalegu drykkju sem þeim fylgir. Það verður stutt og þægileg vinnuvika og sú næstsíðasta fyrir sumarfrí. Ótrúlegt að þetta sé að bresta á loksins. Ég ætla að flytja lögheimilið mitt á KFC þessar tvær vikur á Íslandi. Norðmenn með alla sína olíu og peninga hafa ekki fattað það enn að sú kólesterólauðlind er æðst allra nautna í mat og drykk.

Afmæliskveðjur dagsins (mánudags 6. júní) fara til Bubba Morthens og afa, Eggerts P. Briem (1898 – 1985), sem hefði orðið 113 ára í dag hefði hann lifað. Sennilega hefði hann ekki gert það.

Athugasemdir

athugasemdir