Á Sprengisandi

hells angelsiiÉg hvet alla sanna aðdáendur safaríkra umræðuþátta til að hlusta á þátt Sigurjóns M. Egilssonar, Sprengisand, á Bylgjunni á páskadagsmorgun. Sigurjón ætlar meðal annars að spila athyglisverðustu hlutana úr þætti mínum Vígsakir sem ég tók upp fyrir viku og er helmingurinn af MA-verkefni mínu í blaða- og fréttamennsku. Sjá pistil hér á síðunni frá 23. mars.

Ég var svo stálheppinn að ná til mín mjög góðum viðmælendum, dr. Helga Gunnlaugssyni afbrotafræðiprófessor, Friðrik Þór Guðmundssyni úr siðanefnd Blaðamannafélagsins, Reyni Traustasyni DV-ritstjóra og Einari Marteinssyni, forseta vélhjólaklúbbsins MC Iceland. Umræðuefnið var aðallega nafnbirtingar grunaðra manna í fjölmiðlum, sem ég fjalla um í ritgerðinni, en ég fékk einnig að spyrja Einar örlítið út í væntanlega aðild MC Iceland að Hells Angels og tilraunir dómsmálaráðherra til að fá klúbbinn bannaðan með lögum.

Útkoman var vægast sagt forvitnileg og má geta þess að um er að ræða fyrsta viðtalið sem Einar Marteinsson veitir þar sem hann ræðir um klúbb sinn og eins aðild sína að ‘stóra fíkniefnamálinu’ sem þá var kallað fyrir 11 árum. Þetta verður að duga sem blod på tanden eins og Danirnir segja því ég ætla ekki að stela neinu af Sigurjóni enda mjög þakklátur honum fyrir að hleypa mér í loftið í sínum þætti.

Þá þakka ég öllum sem sendu mér samúðarkveðjur og hlý orð á 36 ára afmælinu í dag. Megi það vera öðrum til viðvörunar. Og svona til að standa undir því að þessi liður heitir nú Tuð: Tveggja lítra flaska af Egils-Kristal með sítrónubragði kostaði mig rétt áðan 435 krónur í Snælandsvídeó hér í Mosfellsbæ! Halló, þetta er kolsýrt vatn! Er það sítrónubragðefnið sem kostar þessi ósköp??

Athugasemdir

athugasemdir