Á maður að skella sér á bunad?

bunadSenn líður að 17. maí og þriðja árið í röð skýtur sú áleitna spurning upp kollinum hvort ég ætti nú loksins að láta verða af því að fjárfesta í bunad, hefðbundnum norskum þjóðbúningi. (MYND: Fjölskylda í Rogalandsbunad. Þetta er nú reffilegt.)

Norðmenn eru mjög harðir við að halda upp á þjóðhátíðardaginn sinn og þá finnst varla það krummaskuð í landinu sem logar ekki endanna á milli í drykkju. Þetta kom mér dálítið á óvart þegar við spásséruðum um miðbæ Stavanger 17. maí 2010 (og segir af hér) sem var okkar fyrsti 17. maí í landinu. Fljótlega komst ég þó að þeirri niðurstöðu að þetta væri í raun mun sniðugra fyrirkomulag en við Íslendingar höfum á þessu, það er að segja að drekka okkur í óvit að kvöldi 16. júní og liggja svo afvelta á sjálfan þjóðhátíðardaginn börnum og hröfnum að leik þegar hið eina sanna drykkjutilefni rennur upp.

Hluti þessarar þjóðhátíðarhörku Norðmanna er að fjölmenna út á götu í bunad, helst með alla fjölskylduna, en hvert fylki landsins hefur bunad með sínu útliti og fylgja miklar hefðir og tilfinningar.17. maiii (MYND: Miðbær Sandnes 17. maí 2012, norskar konur í bunad…og ég á milli þeirra.)

Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að fyrirbærið kostar hvítuna úr augunum. Sæmilegur bunad leggur sig ekki á minna en 30.000 kall með öllum fylgihlutum, 696.864 íslenskar á gengi dagsins. Algeng aðferð við að koma sér upp þessum skrúða er að fá hann gefins í áföngum en það þekkist að börn fái einn og einn hnapp, borða eða eitthvað annað smálegt upp í bunad í afmælis- og fermingargjafir. Þannig myndast að lokum heill bunad og hægt að mæta beint á barinn snemma morguns næsta 17. maí. Ég get varla líkt þessu við neinn íslenskan sið eða ósið.

Vegna náms og annars kostnaðar á ég nú ekki von á því að ég birtist niðri á Madam Aase’s hérna í Sandnes í stífpressuðum bunad á 17. maí í vor en ég er að hugsa um að byrja að safna mér upp einum svo fólk viti þá hvað það getur gefið mér í afmælisgjöf þegar ég verð fertugur á næsta ári. Þá næ ég ef til vill að eiga nothæfan bunad 17. maí vorið sem ég verð fimmtugur.

Athugasemdir

athugasemdir