Sumarfrí atlisteinn.is – næsti pistill 18. júlí!!!

eg fer i friidÉg hélt að þessi dagur kæmi ekki, það eru hreinar línur! Hvílík tilfinning að ganga út af spítalanum klukkan 14:40 í dag í sumri og sól, kominn í verulega langþráð frí í þrjár vikur og þrjá daga. Ótrúlegt. Þegar þetta er ritað sit ég úti í garði með tvöfaldan í glasi og Herbert Guðmundsson í botni á gamla fóninum. Can’t Walk Away. Það er eiginlega haugalygi, loksins get ég gengið í burtu!

Ég þarf ekki að heyra aftur þá sjúklegu kakófóníu sem hringingin í vinnusímanum mínum er fyrr en mánudagsmorguninn 18. júlí. Dagur hinna dauðu hefur fengið nýja dagsetningu. Þetta var annars ekkert grín í morgun, það ætti að banna síðasta daginn fyrir sumarfrí. Ég var með gátlista á pari við dauðahafsritin klukkan 07:00 sem hægt og bítandi saxaðist á þegar á leið. Ég byrjaði á að launakeyra júní svo liðið mitt fái nú útborgað 20. júlí. Svo tóku minni verkefni við og það allra síðasta sem ég gerði var að prenta út þrjú sett af mætingalistum fyrir þessar þrjár vikur og skrifa kveðjubréf til starfsfólksins þar sem ég bað það um að hegða sér eins og fólk rétt á meðan ég færi í frí. Glætan.

Nú stendur yfir drykkja og pökkun. Klukkan 09:20 í fyrramálið fljúgum við til Óslóar þar sem við þurfum að hanga í fjóra og hálfan á Gardermoen sem er svo sem ekkert skemmtilegasti flugvöllur heims en svona fórnar maður sér. Lending á Íslandi er ráðgerð um 15:40, Egils appelsín í gleri og KFC á stundinni! Aðaltilhlökkunarefnið er svo nautasteik á Argentínu á laugardagskvöldið og flaska af rauðvíninu Mentor frá Peter Lehmann á kantinum. Sæla í öðru veldi.

Eftir 15 daga af íslensku sumri fljúgum við með Flugleiðum til Amsterdam (‘…þið vitið að Arnarflug flýgur ekki þangað lengur.’ -Bubbi Morthens) og dveljum þar í átta daga í þeirri kunnu veðursæld sem einkennir þá borg á sumrin. Við gerum vel við okkur fyrstu helgina og verðum á Grand Hotel Krasnapolsky við Dam Square, skólabókardæmi um fimm stjörnu hótel. Hinar sex næturnar verðum við í The Asian Room á gistiheimili Blaine og Peter við Rijnsburgstraat 24 III. Lítur ágætlega út á myndum og kostar 90 evrur nóttin auk þess sem gisting lengur en í fjórar nætur felur í sér ókeypis þrírétta máltíð á veitingastað þeirra Blaine og Peter, Season’s Restaurant. Miðinn gildir fyrir tvo, eins og einhver sagði.

Svo er það bara Stavanger einhvern tímann að kvöldi sunnudagsins 17. júlí, það er eina flugið sem við eigum eftir að kaupa svo þetta er óljóst en má búast við að verði með millilendingu í Kaupmannahöfn. Þetta er því heljarinnar sumarfrí, fjögur lönd í það heila með millilendingu og búsetulandi.

Góðir Íslendingar til sjávar og sveita…góðar stundir, gleðilegt sumar og SKÁL!!!

Athugasemdir

athugasemdir