Óneitanlega verður manni hugsað til 9. maí 1974 núna þegar Nýir tímar boða til mótmæla á morgun ásamt Hagsmunasamtökum heimilanna. Vissulega er 8. maí á morgun (í dag fyrir flesta sem þetta lesa) en Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur og fleiri málsmetandi menn halda því fram að Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra hafi í raun tekið þá ákvörðun 8. maí 1974 að rjúfa þing daginn eftir. Eftir öllum sólarmerkjum að dæma er það rétt.
Ríkisstjórn Ólafs, sem gjarnan gekk undir gælunafninu Ólafía, sprakk með hvelli þennan maímorgun árið 1974, þegar sá sem hér ritar var eins mánaðar og níu daga gamall. Ég verð að játa að mig rekur ekki minni til þessara atburða. Ég verð að segja það. Kristján Eldjárn forseti tók sér aðeins 30 mínútna frest til að íhuga beiðni Ólafs um að rjúfa þing en ákvað svo að annað kæmi ekki til greina. Sjaldan hafa erfiðari stjórnarmyndunarviðræður átt sér stað en þær sem hófust vorið 1974 og það var ekki fyrr en í ágústlok sem ný stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks leit ljós undir forsæti Geirs Hallgrímssonar.
Þarna í gamla daga ríkti alvöru hatur milli stjórnmálamanna. Núna er það almúginn sem hatar stjórnmálamennina. Maður spyr sig hvort sé verra (eða betra). Það sem Ólafur Jóhannesson vann sér helst til saka vorið 1974 var að leggja fram frumvarp um að vísitöluhækkun launa yrði fryst. Merkilegt nokk snúast deilumálin í dag enn að nokkru leyti um vísitölu en aukinheldur hefur gengi krónunnar bæst við og sú staðreynd að sumir bankar ætla sér að rukka viðskiptavini sína um 50 milljónir eftir að hafa lánað þeim 20 í fyrra. Er það löglegt? Er það kannski löglegt en siðlaust? Eða ólöglegt en siðlegt?
Hvað hugsaði Ólafur Jóhannesson að kvöldi 8. maí 1974 og hvað hugsa þeir sem skunda á Austurvöll á morgun til að segja nýrri ríkisstjórn vorsins 2009 hug sinn? Vituð þér þat, en hitt veit ek, at atgeir hans var heima.