10 ár án tóbaks

thjorsardNúna er áratugur upp á dag síðan ég drap í síðustu rettunni sem var Camel Lights (blái Camel-pakkinn). Þetta var mánudaginn 29. maí 2000, daginn sem ég hóf störf sem prófarkalesari á Mogganum með glænýtt BA-próf í íslensku upp á vasann. Þar með hef ég verið hættur að reykja jafnlengi og ég reykti svo það er kannski ástæðulaust að vera að telja árin úr þessu. Ég barðist við að hætta að reykja nánast allan tímann sem ég reykti eins og ég sagði reyndar ítarlega frá í pistli hér á síðunni 29. maí í fyrra. Þetta bjargaðist svo loksins fyrir horn hjá mér þegar ég notaði tækifærið og hóf ferilinn á nýjum vinnustað án tóbaks auk þess sem ég samdi við sjálfan mig um að hætta ekki beint að reykja heldur láta það eiga sig í 40 ár, til 66 ára aldurs. Það hljómaði einhvern veginn mun betur. (MYND: Ein af örfáum myndum sem til eru á rafrænu formi af mér með sígarettu. Hún er tekin í Þjórsárdal um verslunarmannahelgina 1992 og með á myndinni er Andri Ægisson sveitungi minn úr Garðabænum. Við höfum ekkert breyst.)

Kjörstaðir hafa opnað á gamla landinu sé ég og maður er bara farinn að bíða eftir fyrstu tölum…ekki alveg kannski. Þetta er mjög spennandi dagur, ég iða í skinninu eftir úrslitunum í Reykjavík. Eins og mér leiðist pólitík og reyni að fylgjast ekki meira með henni en ég neyðist til er Jón Gnarr gjörsamlega búinn að bjarga deginum hjá mér. Í meðalári hefði ég aldrei nennt að gjóa svo mikið sem öðru auganu að sveitarstjórnarkosningum en núna er maður eins og barn á jólum…bara feitari og drykkfelldari.

Þar að auki er Eurovision-dagur og svakaleg stemmning í Norðmönnum. Elli fór sem fulltrúi okkar til Óslóar og var á rassgatinu þar síðast þegar ég heyrði frá honum sem var reyndar snemma í gær. Þar verður væntanlega tekið aðeins á því í dag. Við ætlum að skella okkur í bæinn í kvöld og hlaða okkur niður á einhverjum bar sem sýnir beint frá keppninni á risaskjá. Fyrst þurfum við að redda okkur íslenskum fánum svo við getum örugglega látið alveg eins og hálfvitar þegar Ísland fær stig. Ekki þarf að taka það fram að ég er alveg eins viss um að íslenska lagið lendi í 1. sæti í kvöld og öll þjóðin hafði það á beinu að Gleðibankinn myndi hafna þar árið 1986. Ég held að það sé enn þá skemmtilegasta keppnin sem ég hef horft á þegar ég lít til baka.
dv
Við tókum netta upphitun fyrir helgina í gær. Hún hófst með rauðvínssötri hérna heima og DV-lestri síðdegis. Pabbi og frú senda okkur DV út, nokkur blöð í einu, sem er alveg ómetanlegt. Eins og ég hafði takmarkað álit á DV á hnignunarskeiði þess árin 2005 og 2006, þar sem sorpblaðamennskan náði hámarki með Ísafjarðarmálinu svokallaða, finnst mér blaðið núna nánast leiða umfjöllun um hrunið og spillinguna á Íslandi með mjög öflugri rannsóknarblaðamennsku. Eins finnst mér Kópskeringurinn Baldur Guðmundsson eiga inni fálkaorðu fyrir neytendaskrif sín. Auk DV streymdum (e. stream) við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni um lýðnetið svo ekki er hægt að segja annað en að við höfum verið með puttann á hinum rammíslenska púlsi í gær. (MYND: DV á kantinum. Alveg einstakt að geta gluggað í Reyni Trausta & co. hér í austurvegi.)

Við litum svo í miðbæinn og borðuðum á Mikado sem er mjög góður japanskur og kínverskur veitingastaður, matseðlinum er hreinlega skipt í japanskt og kínverskt. Fengum okkur samt rauðvín frá Chile með til að brjóta þetta aðeins upp. Við litum svo í eitt glas á Hansen Hjørnet og fórum svo að huga að heimferð. Það fór þó öðruvísi en ætlað var þar sem við kíktum óvart á barinn á Radisson-hótelinu og lentum þar á suddalegu fylleríi með hópi sænskra skógarhöggsmanna frá V…eitthvað sem eru hér á einhvers konar árshátíð. Við töldum ekki koma til greina að 12 Svíar drykkju tvo Íslendinga undir borðið og kenndum þeim því að handleika glasið. Þeir kölluðu Eyjafjallajökul op niður til helvítis og ég benti þeim réttilega á að enda mætti heyra óm af sænsku upp úr gígnum á góðum degi. Skildu menn svo í mesta bróðerni þegar barinn lokaði.

Havarikommisjonen for transport rannsakar nú nauðlendingu smáflugvélar í Sirdal í gær.

Athugasemdir

athugasemdir