1. apríl!

1. aprilÞessari fyrirsögn er ekki ætlað að gabba nokkurn mann enda er 1. apríl í dag og engu logið um það. Þetta táknar að í morgun vaknaði ég upp við þá staðreynd að ég flyt af landi brott í næsta mánuði. Þessu fylgdi þægilegur sæluhrollur eftir að hafa horft á æ fleiri fréttir af nýjum hneykslismálum, bankaskandölum og mannlegum harmleikjum undanfarna daga.

Heilbrigðisyfirvöld hafa neytt 65 lækna til að hætta störfum á Landspítalanum. Á sama tíma eru íslenskir læknar ört vaxandi stofn í Svíþjóð og Noregi. Sér einhver fylgni þarna á milli? Sennilega allir nema ráðherrar heilbrigðis og fjármála enda eru íslensk fjármál allt annað en heilbrigð.

Ég var að ljúka við að prófarkalesa 111 (hundrað og ellefu ekki þriggja!) blaðsíðna meistaraprófsritgerð í stjórnskipunarrétti eftir minn gamla vinnufélaga hjá Securitas, Davor Purusic, sem er að rúlla upp lögfræðinámi á Bifröst. Fróðleg ritgerð um rannsóknarnefndir Alþingis og fleiri þjóðþinga en ég er örlítið eftir mig í augunum eftir þetta þrekvirki og því ekki fær um að vera langorður hér og þakka sjálfsagt margir guðum sínum.

Raunar var erindið ekki annað en að segja gleðilega helvítis páska við helstu menn og biðja þá að fara sér ekki að voða við að skoða eldgos og aðrar hamfarir. Svo vill til að 67 prósent landsmanna segjast, samkvæmt könnun Reykjavíkur síðdegis, ætla að sitja heima hjá sér um páskana og fara hvergi frekar en Gunnar á Hlíðarenda forðum, en nú tengist það þó sennilega fremur okurverði eldsneytis fremur en erjum höfðingja. Nóg er þó af því síðarnefnda.

En sem sagt gleðilega páska og ég bið sem flesta að hlusta á MA-verkefnið mitt í Sprengisandi Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni á páskadagsmorgun (úff, fjórir forsetningarliðir í röð þykja nú ekki góð latína).

Athugasemdir

athugasemdir